Dymbilvika með biskupi ykkar

Kæru bræður og systur,

vegna þess að dymbilvikan verður ekki haldin opinberlega í ár reynum við að vera í sambandi við öll trúsystkini okkar með myndböndum, á Facebook og Youtube, en einkum þó á heimasíðu okkar, www.catholica.is

Hér eru orð biskups ykkar sem þið getið líka fylgst með og verið þar með að minnsta kosti í einhverju sambandi við biskupsdæmi okkar. Kærar þakkir fyrir allan stuðning ykkar á þessum erfiðu tímum.

Blessun Guðs sé með ykkur öllum.

+David biskup

 

Prédikun Davids biskups fyrir pálmasunnudag, 5. apríl 2020

Kæru bræður og systur,

Við erum vön að koma saman á þessum degi og halda pálmasunnudag hátíðlegan. Margir koma til kirkju með fegurstu pálma og fara í helgigöngu undir söng kórsins sem lofar Krist sem kemur inn í borgina sína.

Í dag er þessu allt öðru vísi farið. Enginn mannfjöldi, engin helgiganga og á borðinu eru bara fábreyttar pálmagreinar. Vá! Getur það verið raunverulega svona? Já, já, Og ég er viss um að boðskapur pálmasunnudags getur verið enn sterkari en ef allt væri í fullum skrúða, eins og við erum vön að hafa það venjulega. Hvaðan kemur þessi fullvissa mín?

Ég er alveg sammála manni sem segir að stundum sé of sýnilegur ritúalismi – formfast helgihald – í kirkjunni okkar. Ritúalismi er stundum eins og kona sem skreytir sig of mikið og allir vita það, en enginn er nógu hugrakkur til að segja það við hana. Núverandi aðstæður geta sagt okkur: „Heyrðu, vertu rólegur, gerðu allt á einfaldasta veg til að sjá það sem er mikilvægast.“

Pálmagreinar okkar geta breytt afurð skreytingahæfileika manna í grein sem ber boðskap vonar. Munið eftir ólífugreininni úr frásögninni um Nóa. Dúfan, veikur og máttlítill fugl, kemur með ólífugrein til baka og vekur þar með gleði allra íbúa arkarinnar. Hvílík gleði! Frelsun er nálægt, hún er alveg að koma!

Bræður og systur, lifum pálmasunnudag og næstu daga meira andlega. Öllum aukaatriðum er frestað. Tökum á móti aðstæðum eins og þær væru skilaboð frá Guði sjálfum. Auðvitað geta ekki allir geti komið í dag, en öllum er boðið að koma á eigin vegum til persónulegra bæna í kirkjuna þegar það hentar þeim best, og taka pálmagreinar sem eru við innganginn í kirkjuna og snúa heim með von og gleði um það að frelsun okkar er svo nálæg.

Gleðilegan pálmsunnudag! Amen.